Hella er þéttbýlisstaður í Rangárþingi ytra í Rangárvallasýslu, 94 kílómetra frá Reykjavík. Kauptúnið stendur á eystri bakka Ytri-Rangár, við brúna þar sem Suðurlandsvegur liggur yfir ána. Íbúar Hellu voru 785 þann 1. janúar 2010.
Hella fór að byggjast upp árið 1927, þegar Þorsteinn Björnsson reisti verslunarhús við brúna yfir Rangá, í landi jarðarinnar Gaddstaða. Þessum frumbyggja Hellu var reistur minnisvarði á árbakkanum á 50 ára byggðarafmæli kauptúnsins árið 1977. Hann rak þó ekki verslun sína nema í 8 ár því að 1935 keypti Kaupfélagið Þór verslunina af honum og byggði síðan upp ýmsa þjónustustarfsemi og iðnað á Hellu. Þar er nú auk verslana banki, pósthús, hótel, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, heilsugæslustöð, sláturhús, bílaverkstæði og ýmis þjónustufyrirtæki.