Stórurð

Ósk
Séð

Austurland

Sjá á korti

1945 skoðað

Stórurð er í Urðardal í Hjaltastaðaþinghá, og hún tilheyrir jörðinni Hrafnabjörgum, enda einnig kölluð Hrafnabjargaurð. Stórurð er án efa eitt stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi og þó víðar væri leitað en talið er að hinar stóru steinblokkir sem einkenna hana hafi fallið niður á ís og hann síðan flutt þær fram dalinn og mótað þannig þessa undraveröld. Hinu sérstæða landslagi Stórurðar er erfitt að lýsa með orðum, en það er vissulega stórbrotið svo vægt sé til orða tekið. Sléttir grasbalar og hyldjúpar tjarnir innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús.

Yfir öllu þessu gnæfa Dyrfjöllin, ekki síður tignarleg héðan að sjá en úr Borgarfirði. Enginn verður svikinn af því að eyða hér einni dagstund eða jafnvel fleirum.

Í Stórurð er talsvert snjóþungt og því skyldu ferðamenn spyrjast fyrir um snjóalög ef þeir eru á ferðinni snemma sumars. Ekki er ráðlegt að ganga í stórurð án leiðsagnar staðkunnugra fyrr en komið er fram í júlimánuð!!!

Ganga utan merktra leiða í Stórurð getur verið vafasöm í þoku, en þá er auðvelt að villast þar.Frá Stórurð liggur merkt leið inn á þjóðveginn í Ósfjalli, önnur upp á Vatnsskarð og síðan tvær merktar gönguleiðir til Borgarfjarðar,  báðar mjög áhugaverðar. Önnur er upp urðina og áfram um Eiríksdalsvarp og niður að Hólalandi, innst í Borgarfirði en hin er yfir Mjóadalsvarp og áfram um Grjótdalsvarp og komið niður í Bakkagerði, þorpið í Borgarfirði eystra.  Á síðustu árum hefur ganga í Stórurð verið einn af hápunktum í gönguferðum á Víknaslóðum.

 

Heimild: Sjá hér
Mynd: borgarfjordureystri.is



Staðir nálægt mér

© Anton Stefánsson | antonstefans@gmail.com

Vefsíðan notast við kökur