Rauðisandur eða Rauðasandur er byggðarlag í Vestur-Barðastrandarsýslu og liggur frá Skorarhlíðum út að Látrabjargi. Undirlendið er fremur mjótt og upp frá því rísa fjöll með bröttum hlíðum og háum hömrum. Allmikið sjávarlón, Bæjarvaðall, sker sveitina í sundur og út frá því liggur langt og mjótt lón til vesturs, en framan við það er rif úr rauðgulum skeljasandi og er nokkuð víst að sveitin dregur nafn af sandinum, þótt íLandnámabók segi að Ármóður rauði Þorbjarnarson hafi numið land á Rauðasandi.
Sveitin er grösug og veðursæl og var áður þéttbýl en nú hefur bæjum í byggð fækkað mjög. Helsta höfuðbólið er Saurbær eða Bær. Þar bjuggu ýmsir höfðingjar fyrr á öldum og á 16. og 17. öld var Saurbær sýslumannssetur. Annar þekktur bær á Rauðasandi er eyðibýlið Sjöundá, þar sem hryllileg morð voru framin í byrjun 19. aldar.
Umhverfisstofnun stefnir að því að friðlýsa í áföngum Rauðasand, ásamt Látrabjargi.
Heimild: Sjá hér