Árið 2006 varð Ólafsfjörður hluti af sameiginlegu sveitarfélagi með Siglufirði sem heitir Fjallabyggð. Í Ólafsfirði eru Skrifstofur Fjallabyggðar að Ólafsvegi 4.
Erfið lendingaraðstaða áður fyrr og hafnarskilyrði hafa haft mikil áhrif á útgerð og búsetuþróun á Ólafsfirði. Það er því ekki nema eðlilegt að höfnin hafi orðið slíkur örlagavaldur staðarins sem raun varð enda sífellt baráttumál og lífæð hans. Árið 1944 þegar hefja átti framkvæmdir við höfnina neitaði Sýslunefnd Eyjafjarðar að ábyrgjast lán til hafnargerðarinnar, þrátt fyrir að hún hafði áður samþykkt ábyrgð til annarra sveitarfélaga. Það varð til þess að Ólafsfirðingar óskuðu eftir sjálfstæði frá Eyjafirði. Þá voru íbúar aðeins 909 svo sérstök lög þurfti til þess að svo mætti verða, og í október 1944 voru samþykkt lög þess efnis að Ólafsfjörður fengi kaupstaðarréttindi 1. janúar 1945.
Fyrsti bæjarstjóri Ólafsfjarðar var Þórður Jónsson, sem var bæjarstjóri í 1 ár, síðan tók við Ásgrímur Hartmannsson sem var bæjarstjóri samfleytt í 29 ár. Næstir komu Pétur Már Jónsson, Jón E. Friðriksson, Valtýr Sigurbjarnarson, Bjarni Kr. Grímsson, Hálfdán Kristjánsson og Ásgeir Logi Ásgeirsson. Stefanía Traustadóttir var síðasti bæjarstjóri Ólafsfjarðarbæjar áður en bærinn sameinaðist Siglufirði í Fjallabyggð árið 2006. Núverandi bæjarstjóri Fjallabyggðar er Þórir Kristinn Þórisson.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum tíma og margvíslegar hindranir yfirstignar og erfiðleikar lagðir að baki. Ólafsfjörður hefur vaxið á þessum rúmlega fimmtíu árum úr bernsku sjávarþorpsins í blómlegan fallegan bæ þar sem gott er að búa. Það sem skapað hefur þennan bæ og að hann hefur staðist baráttuna við óblíða veðráttu og erfiðleika fyrri ára er án efa sá óbilandi kjarkur og dugnaður sem einkennt hefur Ólafsfirðinga gegn um árin. Framtakssemi athafnamanna og Ólafsfirðinga allra, ásamt baráttu bæjaryfirvalda fyrir bættum hag staðarins með þeim gæðum sem hér eru til staðar hafa ráðið úrslitum um framtíð bæjarins. Ekki er ólíklegt, þótt ekki sé það staðfest með rannsóknum, að í æðum Ólafsfirðinga renni enn baráttublóð landnámsmannanna þeirra Ólafs bekks og Gunnólfs gamla.
Nú búa Ólafsfirðingar í blómlegum bæ þar sem hægt er að fá flesta þá þjónustu sem nausynleg getur talist. Ýmis opinber þjónusta er í boði, svo sem leikskóli, grunnskóli, tónskóli, bókasafn, heilsugæslustöð og dvalarheimili aldraðra, auk þess sem sýslumannsembættið hefur verið með skrifstofu í Ólafsfirði frá 1945 og veitir þá þjónustu sem því tilheyrir. Í Ólafsfirði er einnig sparisjóður, náttúrugripasafn, hótel, líkamsræktarstöð, sundlaug, matvöruverslun, veitingastaðir, bensínstöð, pósthús og svo mætti áfram telja.
Í seinni tíð eru samgöngur einnig orðnar það góðar að ekki er tiltökumál að skjótast bæjarleið ef þörf er á eða til skemmtunar og upplyftingar þegar þess gerist þörf.
Tjaldsvæðið er staðsett í miðbænum við Íþróttamiðstöðina í Ólafsfirði og þar er lítil tjörn með miklu fuglalífi og smásílum sem vinsælt er að veiða hjá yngri krökkunum.
Heimild: Sjá hér