Kjalarnes er nes sem skagar út í miðjan Faxaflóa sunnan megin við mynni Hvalfjarðar, gegnt Akranesi. Á Kjalarnesi er fjallið Esja. Undir rótum Esjunnar er vogskorið láglendi og fram úr því ganga nesin Álfsnes, Brimnes og Kjalarnes. Leiruvogur er sunnan við Álfsnes, norðan við það er Kollafjörður, Hofsvík skerst inn í strönd Kjalarness og svo er Hvalfjörður norðan við það.
Á Kjalarnesi er 550 manna þorp sem nefnist Grundarhverfi. Kjalarnes var áður sérstakt sveitarfélag en er nú hluti Reykjavíkur. Suðurmörk Kjalarness eru við Leirvogsá en norðurmörkin við Kiðafellsá. Mörk milli Kjalarness og Kjósar liggja eftir hábungu Esju og síðan Skálafells. Láglendið er víðast hvar allvel gróið og skóglendi er í hlíðum Esju upp frá Mógilsá.