Bolungarvík er kaupstaður á Vestfjörðum og sjálfstætt sveitarfélag, við samnefnda vík, yst í Ísafjarðardjúpi. Hún er ein elsta verstöð landsins og er stutt í góð fiskimið. Áður en bærinn fékk kaupstaðarréttindi hét sveitarfélagið Hólshreppur. Þann 1.desember 2008, var íbúarfjöldi Bolungarvíkur 962 manns sem gerir ekki bara það að Bolungarvík er næstfjölmennasti bærinn á Vestfjörðum heldur líka næstfjölmennasta sveitarfélagið á undan Vesturbyggð og á eftir Ísafjarðarbæ.
Það hefur verið byggð í Bolungarvík allt frá landnámsöld og býlið Hóll kemur fyrir í elstu heimildum. Hóll var höfuðból frá því um miðja 13. öld og er líklega fyrsta jörðin í byggðalaginu. Þar sem kaupstaðurinn Bolungarvík stendur núna voru áður jarðirnar Tröð, Ytri Búðir, Heimari-Búðir og Grundarhóll. Jörðin Tröð var áður undir fjallshlíðinni fyrir ofan Traðar- og Dísarland. Seinasta íbúðarhúsið í Tröð stendur ennþá við Traðarland.
Bolungarvík var ein helsta verstöð í Ísafjarðardjúpi allt fram á 20. öld. Róið var frá Bolungarvíkurmölum og svonefndum Grundum og úr Ósvör. Á 17. öld munu 20-30 skip hafa róið úr Bolungarvík og um aldamótin 1900 réru um 90 skip þaðan. Margar verbúðir voru í Bolungarvík en þar mun aldrei hafa risið eiginlegt sæbýlahverfi. Í byrjun 18. aldar voru 18 verbúðir í víkinni.
Það var Þuríður sundafyllir sem nam land í Bolungarvík, en til er skemmtileg saga um það hvernig hún varð seinna að steini. Þuríður átti soninn Völustein og eru til götur í Bolungarvík sem heita eftir þeim mæðginum.
Mönnuð veðurathugunarstöð hefur verið í Bolungarvík frá 1994.