Hrunalaug í Ási í Hrunamannahreppi er botnfrosin og er ekki vitað til þess að það hafi gerst áður. Síðast datt rennsli í laugina niður þegar Hekla gaus árið 1980.
Helena Eiríksdóttir frá Ási sendi sunnlenska.is tvær myndir sem sjá má í myndasafni hér til hægri. Eiríkur Steindórsson, bóndi í Ási, segir ekki vitað til þess að laugin hafi frosið áður. Nú seytlar svolítið volgt vatn í efri laugina en það nær ekki að renna inn í kofann svo að laugin hefur frosið.
Síðast þegar rennsli hætti í laugina var árið 1980 þegar Hekla gaus. Þá þornaði laugin upp að sumri til og var tóm í ár eftir það en náði sér svo á strik aftur. Vatnið var kaldara eftir þetta en eftir Suðurlandsskjálftana árið 2000 hitnaði vatnið aftur og krafturinn jókst.
Hvort þetta sé fyrirboði Heklugoss skal ósagt látið en ljóst er að þeir jólasveinar sem hafa ætlað að taka jólabaðið í Hrunalaug þurfa að leita annarra leiða til að skrúbba af sér ferðarykið.
Heimild: Sjá hér
Mynd: Rolf