Núpsstaður er austasti bærinn í Skaftárhreppi og stendur vestan við Lómagnúp. Á Núpsstað standa einkar merkileg gömul bæjarhús sem talin eru dæmigerð fyrir bæi á Íslandi á síðustu öldum. Þeirra merkast er bænhúsið sem er ein af örfáum torfkirkjum sem enn eru til á landinu. Talið er að bænhúsið sé að stofninum til úr kirkju sem var byggð um 1650 en kirkja var aflögð á Núpsstað 1765. Árið 1930 var bænhúsið friðlýst fyrst húsa á landinu og 1961 var það endurvígt.
Fegurð umhverfisins við Núpsstað er vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum og allt til Vatnajökuls. Núpsstaður liggur alveg við þjóðgarðinn í Skaftafelli og hafa eldgos, jöklar og vötn mótað umhverfið auk þess að skapa fjölbreyttar og einstakar jarðmyndanir.
Austurmark jarðarinnar Núpsstaðar er á Skeiðarársandi og nær jörðin allt norður að Vatnajökli. Austan við bæinn gnæfir Lómagnúpur sem m.a. er þekktur úr Brennu-Njáls sögu. Þarna standa uppi íbúðarhús, fjós og önnur útihús. Fyrsta kirkjan á Núpsstað er talin hafa verið byggð fyrir siðaskipti á Íslandi, eða fyrir 1200. Kirkjan var tileinkuð dýrlingnum Sankti Nikulási en það voru fáir sem tilheyrðu söfnuðinum á þessum tíma. Árið 1765 var hins vegar hætt að nota kirkjuna fyrir söfnuðinn og hún í staðinn notuð sem einka kapella. Eftir 1783 var byggingin hins vegar notuð sem skemma. Árið 1930 tók Þjóðminjasafnið húsið í sína vörslu og á árunum 1958-1960 var það tekið í gegn og gert upp. Þess má til gamans geta að bærinn hefur verið í eigu sömu fjölskyldu, mann fram af manni, síðan 1730. Bæjarstæðið er einstaklega vel varðveitt menningarlandslag og er einstök heimild um hvernig búskapi var háttað og hvernig svæðið var nýtt fyrr á dögum. Nú hefur Þjóðminjasafninu verið falin varðveisla bæjarhúsanna á staðnum.
Í landi Núpsstaðar eru einnig Núpsstaðarskógar. Þeir eru sérlega fagurt kjarrlendi sem vex í hlíðum Eystrafjalls, vestan Skeiðarárjökuls og sunnan Grænalóns. Þar vex fjölbreyttur gróður og gaman er að ganga um svæðið. Að skógunum liggur ógreiðfær slóði inn með Lómagnúpi austanverðum og yfir Núpsvötn.
Allt land Núpsstaðar er á náttúruminjaskrá.
Mynd: Gunnlaugur Torfason